Hvorki sumaropnun né Ólafdalshátíð 2023

Ólafsdalsfélaginu þykir leitt að tilkynna að vegna mikilla framkvæmda Minjaverndar hf. við skólahúsið í Ólafsdal í Gilsfirði verður ekki af sumaropnun félagsins 2023.
Vegna framkvæmdanna og ófullnægjandi aðstöðu fyrir undirbúningshóp og gesti hátíðarinnar verður Ólafsdalshátíð 2023 felld niður. Ólafsdalsfélagið stefnir á að halda veglega Ólafsdalshátíð árið 2024.

Starfsemi Ólafsdalsfélagsins og menningarhlutverk verður óskert að öðru leyti og er mikill hugur í félaginu að tryggja farsæla endurreisn Ólafsdals, samfara því að standa vörð um verndun og viðhald þeirra einstöku menningarminja sem þar eru og stuðla að kynningu á þeim. Ennfremur að standa vörð um einkennandi útlit skólahússins í Ólafsdal. Ólafsdalur er órofa minjaheild og einstakur sem slíkur á landsvísu eins og fjölmargir sérfræðingar hafa staðfest. Í þessu samhengi er má vitna í orð Bjarna Guðmundssonar prófessor á Hvanneyri: „Í búnaðarsögulegu tilliti þarf að ganga um Ólafsdal eins og gengið er um Skálholt og Hóla í ljósi kirkjusögunnar.“

Þá minnir félagið á að fornleifauppgröftur á vegum Fornleifastofnunar Íslands mun halda áfram í dalnum sjötta sumarið í röð og fara rannsóknirnar að þessu sinni fram í fyrri hluta ágústmánaðar. Þar eru sífellt að koma í ljós nýjar byggingar frá landnámstíð aðeins um 1 km sunnan við skólahúsið. Góður styrkur fékkst úr Fornminjasjóði til verksins.

Sumaropnun 2022 hafin

Þá eru Helga og Rögnvaldur búin að gera húsið klárt og opna fyrir gestum sumarsins. Sumaropnunin sendur til 1. ágúst og í gær kom, fjörugur og frískur, 53 manna hópur meðlima Trimmklúbbs Seltjarnerness (TKS). Halldór og Sverrir Ásgeirssynir voru hér að ganga frá uppsetningu verka sinna. Halldór er með útiverk sem ber heitið „Orrustan um vindinn„. Sverrir með myndverk sem eru til sýnis í Suðurstofnunni.

Trimmklúbbur Seltjarnarness, með þeim fremst fyrir miðju er Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins.
TKS
„Orrustan um vindinn“, nútíð og fortíð mætast í átökum um vindorkugarða og blóðugt minni Sturlungualdar.
Myndverk Sverris í Suðurstofunni.
Sverrir og Halldór Ásgeirssynir.

Sumaropnun íbúðar- og skólahússins 2022 – listaverkasýning

Með góðfúslegu leyfi Minjaverndar mun verða hægt að hafa sumaropnun á íbúðar- og skólahúsið í Ólafsdal.

Dyrnar verða opnaðar almenningi frá 10. júlí til 1. ágúst 2022.

Opið verður alla dagana milli 12 og 17.

Allan opnunartímann verða listaverk bræðranna Halldórs og Snorra Ásgeirssona til sýnis. Faðir þeirra var Ásgeir Hjartarson sagnfræðingur (1910-1974) en hann var sonur Ragnheiðar Torfadóttur frá Ólafsdal og Hjartar Snorrasonar frá Magnússkógum (sem var einn af skólapiltum í Ólafsdalsskólanum). Bræður Ásgeirs voru Torfi tollstjóri og Snorri skáld.
Halldór er með útiverk sem ber heitið „Orrustan um vindinn„ þar sem m.a. má sjá atgeirsodd sem snýst í takt við vindáttina, knúinn af þremur stálskálum er tengjast þriggja metra hárri járnstöng er rís úr jörðinni. Þar í kring er fuglsfjöðrum stungið niður ásamt nokkrum myndfánum af fuglum. Nútíð og fortíð mætast í átökum um vindorkugarða og blóðugt minni Sturlungualdar.

Snorri sýnir nýlegar litblýantsteikningar gerðar á pappír sem settar verða upp í suðurstofu skólahússins á fyrstu hæð. Þau verk eru liður í myndlistarverkefninu, „Nr. 4 Umhverfing“, sem fjöldi listamanna taka þátt í með sýningum í Dölum, á Ströndum og Vestfjörðum í sumar.

Staðarhaldarar í Ólafsdal í sumar verða m.a. Rögnvaldur Guðmundsson formaður Ólafsadalsfélagsins og kona hans Helga Björg Stefánsdóttir. Einnig Torfi Ólafur Sverrisson og fjölskylda.

Aðgangur að húsinu 900 kr., kaffi/te 400 kr., vaffla 700 kr. ,,Pakki“ aðgangur að húsinu með kaffi/te, og vöfflu (djús fyrir börn) á 1.600 kr. á mann.

Aðgangur ókeypis fyrir Ólafsdalsfélaga og börn 0-16 ára.

Bæjarhlaðið í Ólafsdal að taka stakkaskiptum

Í tíð Torfa og Guðlaugar átti sér stað mikil uppbygging á bæjarhlaðinu, eins og hægt er að sjá af gömlum myndum var þar fjöldi húsa til ýmissa nota á blómaskeiði skólans. Í tímans rás hafa þessar byggingar horfið ein af annarri, en íbúðar- og skólahúsið orðið eina húsið sem stóð eftir ásamt veggjum vatnshúsins og fjósins. Það var búið í Ólafsdal til 1968 og stopult til 1970, eftir það nýtti Menntaskólanum við Sund húsið í nokkur ár sem skólasel. Árið 1994 var björgunaraðgerðum hrundið af stað, en þá var húsið farið að láta verulega á sjá, þær lagfæringar áttu án efa mestan þátt í að húsið yrði ekki veðrum og vindum að bráð. Nú er öldin önnur og framtíðin björt og í vetur hafa starfsmenn Minjaverndar heldur betur látið hendur standa fram úr ermum sem sjá má.

Veitukerfið er undirstaða fyrir innviði bæjarhlaðsins og hér er vandað til undirstöðuþáttanna.

Bæjarhlaðið smásaman að taka á sig fyrri reisn.

Vinna innandyra komin á fullt.

Fjöldi góðar gesta heimsóttu Ólafsdal sumarið 2021.

Nú eru galvaskir smiðir og aðrir iðnaðarmenn á vegum Minjaverndar mættir aftur eftir sumarfrí og halda áfram uppbyggingu húsanna í haust og vetur.

Veðrið var ljómandi gott allan tímann á meðan sumaropnuninni stóð og sól í allra sinni. Vinsælt var að ganga að víkingaaldarminjunum þar sem forleifafræðingar Forleifastofnunar Íslands voru að störfum. Þeir hafa nú lokið staðbundnum rannsóknum þetta árið. Endurreistar byggingar í Ólafsdal vöktu mikinn áhuga og eftir því tekið hversu vinnubrögð eru vönduð. Margir spurðu hvenær mætti fara að bóka gistingu á staðnum sem áformað er að opna fyrir sumarið 2024. Augljóst að mikill áhugi er fyrir því að gista og dvelja lengur í Ólafsdal þegar slíkt verður í boði, við sem höfum reynslu af því getum alveg skilið það.

Ólafsdalsfélagið þakkar Minjavernd fyrir að veita okkur enn eitt tækifærið til að hafa íbúðar- og skólahúsið opið fyrir gesti sem notið hafa sýningar og leiðsagnar í því góða andrúmslofti sem ríkir í þessu einstaka húsi.

Við þökkum öllum þeim yndislegu gestum sem lögðu leið sína til okkar í Ólafsdal hjartanlega fyrir komuna.

Sjáumst hress og kát á næsta ári!

Elínborg Kristinsdóttir (uppalin í dalnum) mætti við 17da mann í Ólafsdal.

Kristjón, Jóna, Arnór, Áslaug, Þorsteinn, Guðmundur og Helga.
Guðmundur Rögnvaldsson frá Ólafsdal, kampakátur með að vera kominn ,,heim“.
Kristjón Í Tjaldsnesi glaðhlakkalegur með kaffi og vöfflur.

Atli Ingólfsson frá Brautarholti í Dölum ásamt syni og vini hans.
Símon og Kristján Gunnarssynir, barnabörn Arnkels Ingimundarsonar sem ólst upp í Ólafsdal 1906-16.
Erlingur Teitsson og Sigurlaug Svavarsdóttir, bændur að Brún í Reykjadal, Suður Þingeyjarsýslu.
Frændurnir Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins og Halldór Ásgeirsson myndlistamaður. Halldór er sonarsonur Ragnheiðar Torfadóttir (eldri). Rögnvaldur er aftur á móti sonarsonur Áslaugar Torfadóttur og því eru Torfi og Guðlaug langafi og langamma beggja þessara myndar sveina.

Þremenningarnir Torfi Ólafur Sverrisson og Ragnheiður Torfadóttir, langafi þeirra fylgist með.
Nóg að gera hjá Helgu Fanneyju við að hjálpa Helgu ömmu í eldhúsinu.
María Játvarðsdóttir og Húgó eiginmaður hennar.
Inga Björg Sverrisdóttir að nærast fyrir móttökur næsta dags.
Áslaug, Sigurbjörg (frá Þverdal), Guðlaug (frá Þverdal) og Helga, búnar að fara yfir reikninga skólans.

ÓLASFDALSHÁTÍÐ 14. ÁGÚST AFLÝST – en opið til 15. ágúst.

Okkur þykir leitt að tilkynna að þrettándu Ólafsdalshátíðinni sem vera átti laugardaginn 14. ágúst er hér með afýst vegna Covid fjöldatakmarkana.

Áfram verður opið í Ólafsdal kl. 12-17 alla daga fram til 15. ágúst.

Sýningar, leiðsögn, kaffi, rjómavöfflur, Erpsstaðaís, góðar gönguleiðir og fornminjar.

Mikill kraftur hefur verið í framkvæmdum Minjaverndar á staðnum að undarförnu. Þannig standa nú fimm byggingar í Ólafsdal þar sem skólahúsið var eitt fyrir þremur árum.

Fimm fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands eru nú við rannsóknir á minjasvæðinu, undir forystu Hildar Gestsdóttur, þar sem landnámsskáli og aðrar fornar byggingar fundust árið 2017. Gestum er velkomið að ganga að minjasvæðinu sem er 1,2 km frá skólahúsinu (15-20 mín ganga). Þeir eru þó beðnir um að trufla ekki fornleifafræðingana sem hafa skamman tíma til rannsókna þetta árið. Góðar upplýsingar eru um fornleifauppgröftinn inni í skólahúsinu.

Góð aðsókn hefur verið að Ólafsdal frá opnun í sumar. Veðrið undanfarna daga hefur verið frábært og veðurspáin er góð.

Gestgjafar fram til lokunar verða Rögnvaldur Guðmundsson og Helga Björg Stefánsdóttir.

Fornleifafræðingarnir mættir í Ólafsdal.

Verið að grafa elstu gólflögin.

Strax á fyrsta degi fannst þessi fína tvöfalda glerperla.


Annað sem fundist hefur er meðal annars:

  • Snældusnúður úr blýi
  • Kolaða fræ
  • Snúin glerperla, víkingaaldargripur
  • Sólgul perl
Loftmynd af víkingaskálanum sumarið 2020

Gönguhópur hvílir lúin bein við styttuna af Torfa og Guðlaug.

Endurbygging gengur vel.

Margir leggja leið sína í Ólafsdal

Frá opnun hafa margir komið í Ólafsdal á degi hverjum. Eins og við bjuggumst við þá heimsóttu okkur fjöldi fólks um verslunarmannahelgina. Aðallega hafa þetta verið íslendingar en inn á milli erlendir ferðamenn. Sumir gesta greina frá tengslum sínum við Ólafsdal, eru afkomendur nemenda eða Torfa og Guðlaugar, hafa tengsl í gegnum Menntaskólann við Sund, eru nágrannar úr Saurbæ eða Reykhólahreppi. Alltaf gaman að heyra frásagnir fólks af sínum tengslum við staðinn, þær auðga og bæta við þekkinguna um líf og starf í Ólafsdal. Þann 3. ágúst fengum við einstaka heimsókn, þegar Bjarni Guðmundsson frá Hvanneyri kom færandi hendi. Hann færði, eins og hann orðaði það ,,Ólafsdalsskóla“, bækurnar ,,Íslenskir sláttuhættir“ og ,,Yrkja vil ég jörð“ að gjöf, en hann er höfundur beggja ritanna. Þessar bækur innihalda mikinn fróðleik um landbúnað fyrri tíma og þar með fróðleik um Torfa Bjarnason og Ólafsdalsskólann, þar sem bæði Torfi sem einstaklingur og starf það sem unnið var í Ólafsdal markaði straumhvörf í landbúnaðarsögu Íslands.

Hér veitir fulltrúi Ólafsdalsfélagsins/,,Ólafsdalsskóla“ Torfi Ólafur Sverrisson, bókagjöfinni viđtöku. Ólafsdalsfélagiđ færir Bjarna bestu þakkir fyrir gjöfina.

Kvöldflug um Ólafsdal 30.7.2021

Sumaropnun 2021

Nú styttist í sumaropnun í Ólafsdal, við opnum húsið sunnudaginn 25. júlí og verður opið til 15. ágúst, opnunartíminn er milli klukkan 12 og 17 alla daga. Eins og áður hefur komið fram eru miklar framkvæmdir við uppbyggingu staðarins og opnunartímabilið því með stysta móti.

Þrettánda Ólafsdalshátíðin verður haldin laugardaginn 14. ágúst og daginn eftir er síðasti opnunardagurinn þetta sumarið.

Í ágúst munu fornleifafræðingar á vegum Fornleifastofnunar Íslands halda áfram vinnu að uppgreftri á víkingaaldarskálanum í Ólafsdal (frá 9.-10. öld) og öðrum fornum minjum, fjórða sumarið í röð. Áætlað var að rannsóknirnar myndu taka þrjú sumur en ljóst er að lengri tíma þarf, enda er um flókið verkefni að ræða. Þessi fundur staðfestir a.m.k. 1000 ára sögu og eykur enn menningar og sögulegt gildi Ólafsdals. Það er því mikilvægt, þegar uppbyggingu líkur, að til staðar verði góð og vönduð fræðslu og upplýsingagjöf fyrir gesta.


Staðarhaldarar í Ólafsdal 2021 verða:
Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins og eiginkona hans Helga Björg Stefánsdóttir.
Elfa Stefánsdóttir og Haraldur Baldursson (sem verið hafa staðarhaldarar 2015-2019) munu leysa þau af ásamt systkinunum Torfa Ólafi og Sigríði Maríu Sverrisbörnum Markússonar, Torfa Bjarnasonar.

Við hlökkum til að sjá þig og þína í Ólafsdal í sumar.


Munið:
 Aðgangseyrir er óbreyttur 800 kr.
 Frítt fyrir Ólafsdalsfélaga og 0-16 ára.
 Kaffi, rjómavöfflur og Erpsstaðaís til sölu.
 Ókeypis svaladrykkir fyrir börnin.
 Sýning um Ólafsdalsskólann á 1. hæð og um konurnar í Ólafsdal á 2. hæð.

Spurning: Hvaða einkaleyfi fékk Torfi Bjarnason 1874, sem var jafnframt fyrsta einkaleyfi Íslendings?

Margt í gangi, framkvæmdir komnar á fullt

Formaður félagsins var á ferð í dalnum og kom til baka kampakátur með hvað mikið líf og fjör er í Ólafsdal um þessar mundir. Flokkur vaskra manna frá Minjavernd heldur áfram uppbyggingu húsanna á bæjarhlaðinu af miklum krafti og stakri vandvirkni.  Nú er unnið við að endurreisa húsið þar sem smiðjan í Ólafsdal var. Einnig nýtt geymslu- og tæknihús þar rétt norðan við sem hefur fengið vinnnuheitið „Lækjarhúsið“. 

Endurbygging smiðjunar, ,,Lækjarhúsið í bakgrunni.

Líkt og áður taka heimamenn þátt í verkinu. Minjavernd leggur áherslu á að eiga gott samstarfi við nærsamfélagið og er það vel.  Síðan er von á fornleifafræðingum síðsumars og verður spennandi að sjá hvaða viðbótarvitneskja kemur fram í rannsóknum þeirra. Finna þau kannski Ólaf belg? 

Það mun verða um 3ja vikna hlé á vinnu Minjaverndar í lok júlí og fram í miðjan ágúst. Á þessum tíma mun Ólafsdalsfélagið vera með sumaropnun í gamla skóla- og íbúðarhúsinu, veita leiðsögn og bjóða upp á léttar veitingar. Um að gera að nýta það tækifæri til að heimsækja Ólafsdal, skoða skóla- og íbúðarhúsið og allt það sem verið er að byggja upp að ógleymdum víkingaskálanum.  Nú sér fyrir endann á vandræðum með atburðahald vegna Covid og því er stefnt að mikilli og skemmtilegri Ólafsdalshátíð laugardaginn 14. ágúst. Sumaropnun og Ólafsdalshátíð munum við kynna betur á næstunni þegar skipulagning og dagskrá liggur fyrir. 

Hér á síðu Minjaverndar má finna umfjöllun um framkvæmdina.

Lokadagar opnunar og grænmetisupptekt

Þá er komið að lokahelginni þar sem opið er fyrir gesti í íbúðar- og skólahúsinu. Grænmetið verður tekið upp á laugardeginum, 15. ágúst, en þá gefst þeim sem koma í heimsókn tækifæri á að næla sér í rófur, hnúðkál, grænkáls eða annað það sem kemur úr matjurtargarðinum.

Velkomin í heimsókn, staðarhaldarar.