Lokadagar opnunar og grænmetisupptekt

Þá er komið að lokahelginni þar sem opið er fyrir gesti í íbúðar- og skólahúsinu. Grænmetið verður tekið upp á laugardeginum, 15. ágúst, en þá gefst þeim sem koma í heimsókn tækifæri á að næla sér í rófur, hnúðkál, grænkáls eða annað það sem kemur úr matjurtargarðinum.

Velkomin í heimsókn, staðarhaldarar.

Hætt við Ólafsdalshátíð, en opið fyrir gesti til 15. ágúst.

Nú er því miður komin upp sú staða að við verðum að hætta við þrettándu Ólafsdalshátíðina þann 15. ágúst næstkomandi. Það eru mikil vonbrigđi því hún hefur veriđ eitt af mikilvægust verkefnum félagsins ár hvert. 100 manna takmarkanir og 2 metra nálægðar reglan gera okkur ókleift ađ skipuleggja hátíðina.

Áfram verður þó opið fyrir gesti í Ólafsdal alla daga kl. 12.00-17.00 fram til 15. ágúst, en ekki 16. ágúst eins og áður var áformað.

Í gestamóttökunni sinnum við vel COVID sóttvörnum og virðum 2 metra regluna, sleppum handklæðum á salernum, sótthreinsum reglulega helstu snertifleti, bjóðum gestum upp á einnota hanska, handspritt og svo framvegis.

Til mikillar ánægju hefur aðsókn að Ólafsdal verið óvenju góð frá opnun og margir áhugasamir Íslendingar á ferðinni, en einnig erlendir ferðamenn. Sennilega er aðsóknin þetta árið sú mesta frá því félagið fór að taka á móti gestum í Ólafsdal. Endurreisn staðarins og forleifafundurinn, langhús frá víkingatíma og aðrar fornar byggingar, hefur greinilega spurst út. Búum svo vel að margt er einnig að skoða og sjá utandyra í fallegu umhverfi Ólafsdals, þar sem minjar eru við hvert fótmál og gönguleiðir góðar.

Viđ þökkum skilninginn á þessum aðstæðum og væntum þess geta haldiđ Ólafsdalshátíð að ári.