Sumaropnun íbúðar- og skólahússins 2022 – listaverkasýning

Með góðfúslegu leyfi Minjaverndar mun verða hægt að hafa sumaropnun á íbúðar- og skólahúsið í Ólafsdal.

Dyrnar verða opnaðar almenningi frá 10. júlí til 1. ágúst 2022.

Opið verður alla dagana milli 12 og 17.

Allan opnunartímann verða listaverk bræðranna Halldórs og Snorra Ásgeirssona til sýnis. Faðir þeirra var Ásgeir Hjartarson sagnfræðingur (1910-1974) en hann var sonur Ragnheiðar Torfadóttur frá Ólafsdal og Hjartar Snorrasonar frá Magnússkógum (sem var einn af skólapiltum í Ólafsdalsskólanum). Bræður Ásgeirs voru Torfi tollstjóri og Snorri skáld.
Halldór er með útiverk sem ber heitið „Orrustan um vindinn„ þar sem m.a. má sjá atgeirsodd sem snýst í takt við vindáttina, knúinn af þremur stálskálum er tengjast þriggja metra hárri járnstöng er rís úr jörðinni. Þar í kring er fuglsfjöðrum stungið niður ásamt nokkrum myndfánum af fuglum. Nútíð og fortíð mætast í átökum um vindorkugarða og blóðugt minni Sturlungualdar.

Snorri sýnir nýlegar litblýantsteikningar gerðar á pappír sem settar verða upp í suðurstofu skólahússins á fyrstu hæð. Þau verk eru liður í myndlistarverkefninu, „Nr. 4 Umhverfing“, sem fjöldi listamanna taka þátt í með sýningum í Dölum, á Ströndum og Vestfjörðum í sumar.

Staðarhaldarar í Ólafsdal í sumar verða m.a. Rögnvaldur Guðmundsson formaður Ólafsadalsfélagsins og kona hans Helga Björg Stefánsdóttir. Einnig Torfi Ólafur Sverrisson og fjölskylda.

Aðgangur að húsinu 900 kr., kaffi/te 400 kr., vaffla 700 kr. ,,Pakki“ aðgangur að húsinu með kaffi/te, og vöfflu (djús fyrir börn) á 1.600 kr. á mann.

Aðgangur ókeypis fyrir Ólafsdalsfélaga og börn 0-16 ára.

Skóla- og íbúðarhúsið var keypt tilsniðið frá Noregi, hvaða ár var það reist?