Margt í gangi, framkvæmdir komnar á fullt
Formaður félagsins var á ferð í dalnum og kom til baka kampakátur með hvað mikið líf og fjör er í Ólafsdal um þessar mundir. Flokkur vaskra manna frá Minjavernd heldur áfram uppbyggingu húsanna á bæjarhlaðinu af miklum krafti og stakri vandvirkni. Nú er unnið við að endurreisa húsið þar sem smiðjan í Ólafsdal var. Einnig nýtt geymslu- og tæknihús þar rétt norðan við sem hefur fengið vinnnuheitið „Lækjarhúsið“.
Líkt og áður taka heimamenn þátt í verkinu. Minjavernd leggur áherslu á að eiga gott samstarfi við nærsamfélagið og er það vel. Síðan er von á fornleifafræðingum síðsumars og verður spennandi að sjá hvaða viðbótarvitneskja kemur fram í rannsóknum þeirra. Finna þau kannski Ólaf belg?
Það mun verða um 3ja vikna hlé á vinnu Minjaverndar í lok júlí og fram í miðjan ágúst. Á þessum tíma mun Ólafsdalsfélagið vera með sumaropnun í gamla skóla- og íbúðarhúsinu, veita leiðsögn og bjóða upp á léttar veitingar. Um að gera að nýta það tækifæri til að heimsækja Ólafsdal, skoða skóla- og íbúðarhúsið og allt það sem verið er að byggja upp að ógleymdum víkingaskálanum. Nú sér fyrir endann á vandræðum með atburðahald vegna Covid og því er stefnt að mikilli og skemmtilegri Ólafsdalshátíð laugardaginn 14. ágúst. Sumaropnun og Ólafsdalshátíð munum við kynna betur á næstunni þegar skipulagning og dagskrá liggur fyrir.
Hér á síðu Minjaverndar má finna umfjöllun um framkvæmdina.