Margir leggja leið sína í Ólafsdal

Frá opnun hafa margir komið í Ólafsdal á degi hverjum. Eins og við bjuggumst við þá heimsóttu okkur fjöldi fólks um verslunarmannahelgina. Aðallega hafa þetta verið íslendingar en inn á milli erlendir ferðamenn. Sumir gesta greina frá tengslum sínum við Ólafsdal, eru afkomendur nemenda eða Torfa og Guðlaugar, hafa tengsl í gegnum Menntaskólann við Sund, eru nágrannar úr Saurbæ eða Reykhólahreppi. Alltaf gaman að heyra frásagnir fólks af sínum tengslum við staðinn, þær auðga og bæta við þekkinguna um líf og starf í Ólafsdal. Þann 3. ágúst fengum við einstaka heimsókn, þegar Bjarni Guðmundsson frá Hvanneyri kom færandi hendi. Hann færði, eins og hann orðaði það ,,Ólafsdalsskóla“, bækurnar ,,Íslenskir sláttuhættir“ og ,,Yrkja vil ég jörð“ að gjöf, en hann er höfundur beggja ritanna. Þessar bækur innihalda mikinn fróðleik um landbúnað fyrri tíma og þar með fróðleik um Torfa Bjarnason og Ólafsdalsskólann, þar sem bæði Torfi sem einstaklingur og starf það sem unnið var í Ólafsdal markaði straumhvörf í landbúnaðarsögu Íslands.

Hér veitir fulltrúi Ólafsdalsfélagsins/,,Ólafsdalsskóla“ Torfi Ólafur Sverrisson, bókagjöfinni viđtöku. Ólafsdalsfélagiđ færir Bjarna bestu þakkir fyrir gjöfina.

Kvöldflug um Ólafsdal 30.7.2021