Húnvetningar, forleifafræðingar og erlendir ferðamenn í Ólafsdal
Gaman að fá 14 manna hressan hóp, „jeppahópinn“, sem að mestu er brottfluttir Húnvetningar (Blönduós og nágrenni), í heimsókn í vikunni. Þau hafa farið í ferðir saman í um 30 ár. Eins og þekkt er studdu Húnvetningar Torfa mikið og höfðu áform um að koma á ,,fyrirmyndarbúi, kennslubúi eða einskonar búnaðarskóla“ með Torfa þó ekki hafi orðið af þeim áformum.
Þessa dagana eru einnig fjórir fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands með bækistöð í Ólafsdal. Þrír þeirra eru að vinna við að fornleifaskrá svæði í Saurbæ sem tengdist búsetu Sturlu Þórðarsonar sagnaritara (á 13. öld) þar í sveit, með áherslu á Staðarhól (þar bjó hann lengi) og aðra bæi í Staðarhólsdal. Ein er síðan að vinna að því að „fleyta“ efni úr gólflögum í landnámsskálanum í Ólafsdal.
Einnig hafa hér verið tveir bændur úr Saurbænum, Arnar í Stóraholti og Guðmundur á Kjarlaksvöllum, að vinna að því að moka að og hylja síðan að mestu með torfþökum áhaldahús niðri í barðinu sem Loftorka reisti fyrir Minjavernd í fyrra.
Gestir eru upp til hópa mjög fróðleiksfúsir og stoppa að meðaltali 1-2 klst. Margir ganga að víkingaaldarminjunum.
Erlendir ferðamenn farnir að sjást meira, s.s. frá Þýskalandi og Póllandi.
Grænmetið lítur vel út og vex hratt.