Færslur

Samningur við Minjavernd undirritaður

Stjórn Ólafsdalsfélagsins fagnar samningi félagsins, fjármálaráðuneytisins og Minjaverndar um stórhuga uppbyggingu staðarins til þess horfs sem hann var í á tíma Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal. Starf Ólafsdalsfélagsins, sjálfboðavinna og stuðningur ýmissa aðila frá árinu 2007 hefur gert þennan áfanga mögulegan. Ánægjulegt er að þessi tímamót verða á 100 ára ártíð Torfa Bjarnasonar.

Samhliða metnaðarfullri uppbyggingu Minjaverndar er tryggt að sögu Ólafsdals verður haldið á lofti og menningar- og jarðræktarminjar varðveittar og gerðar aðgengilegar til framtíðar. Ólafsdalsfélagið hefur í dag fallið frá langtímaleigu sinni á Ólafsdal og afhent Minjavernd keflið varðandi uppbyggingu staðarins. Um leið fær félag formlegt hlutverk varðandi miðlun sögunnar, rannsóknir og ráðgjöf um uppsetningu sýninga í Ólafsdal.

Ólafsdalur er einn merkasti menningarminjastaður á Vesturlandi og við Breiðafjörð og einstakur í landbúnaðarsögu Íslands. Því eru það hagsmunir allra samningsaðilar að merki staðarins sé haldið hátt á lofti. Ólafsdalsfélagið heldur því áfram starfi sínu við rannsóknir, fræðslu, skráningu örnefna og sagna, merkingu gönguleiða, lífræna ræktun grænmetis og árlega Ólafsdalshátíð. Ólafsdalsfélagið lítur með björtum augum til samvinnu við Minjavernd og stjórnvöld á komandi árum og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við alla velunnara Ólafsdals, sumargesti í dalnum og gesti og þátttakendur í árlegri Ólafsdalshátíð.

Fyrirhuguð uppbygging í Ólafsdal er ein stærsta fjárfesting í atvinnulífi áratugum saman í Dalabyggð og Ólafsdalsfélagið væntir þess að hún verði byggðalaginu og nágrannasveitarfélögum lyftistöng.

„Ólafsdalsfélagið var stofnað til að endurbyggja Ólafsdal og breiða út vitund um staðinn og sögu hans. Við fögnum því að fá Minjavernd til að sjá um endurbyggingu af þessum metnaði og virðingu fyrir sögunni. Ólafsdalsfélagið mun þá einbeita sér að þeim þætti sem snýr að mannlífi, menningu og miðlun sögunnar,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins.