Gönguleiðir
Ólafsdalur býður upp á dásamlega náttúru og gönguleiðir við allra hæfi
Margar skemmtilegar gönguleiðir tengjast Ólafsdal. Hér á eftir er stutt leiðarlýsing nokkurra þeirra.
Skálin er stór grasbali í fjallinu beint ofan við bæinn í Ólafsdal. Þaðan er mikið útsýni út Gilsfjörð, yfir Breiðafjörð og út Barðaströndina. Þarna er líka gott að glöggva sig á Ólafsdalsjörðinni og þeim miklu görðum sem Torfi hlóð umhverfis túnin. Gönguleiðin upp í skál er aðeins rúmur kílómetri og liggur upp í rúmlega 200 metra hæð. Leiðin er nokkuð brött og flestir kjósa að ganga upp grastunguna hægra megin við Skálina og fara svo þvert yfir skriðu og inn í suðurenda hennar. Þegar upp er komið liggur leiðin gjarnan nyrst í Skálina þaðan sem víðsýnast er. Fyrir miðri skál er urð sem í er gamalt tófugreni.
Hjá heimilisfólki í Ólafsdal var alvanalegt að fara í skemmtigöngu með gestum með fjallsbrúnunum umhverfis dalinn. Þessi ganga er um 13 km og liggur leiðin hæst í rúmlega 500 metrum yfir sjávarmáli. Hringurinn var nær alltaf farinn réttsælis þannig að lagt var af stað frá bænum og upp í Skál (sjá leiðarlýsingu þangað). Þaðan var farið upp skarð sem er u.þ.b. fyrir miðri Skál og upp á Sandkúlu. Þaðan er stutt á fjallsbrúnina. Leiðin er grýtt á kafla en greiðfær. Margir kjósa að ganga nyrsta út á Stekkjarhyrnuna til að njóta útsýnis yfir Gilsfjörð og Breiðafjörð. En hringleiðin liggur fyrst að Hvarfsdal þaðan sem sjá má ofan í Draugaskot. Draugarnir sjálfir eru klettadrangar sem eru beggja vegna fossins þar sem Hvarfsdalsáin steypist ofan í Draugaskotið. Þaðan er haldið yfir á Þverfjallið og loks fyrir Ólafsdalinn. Þar neðan við brúnina er Illatunga, þríhyrningslaga tunga sem svo illt var að komast í og úr að hún var yfirleitt ekki smöluð heldur beðið eftir að fé þar skilaði sér úr henni. Leiðin liggur svo áfram eftir brúnum Kragafjallsins að Lambadal og Lambadalsá. Þar er gengið niður hrygginn bæjarmegin við Lambadalsána sem heitir Tagl. Í lok göngunnar velja göngumenn hvort þeir stikla eða vaða ána eða taka krókinn niður á brú á leið heim í bæ.
Til að fá annars konar útsýni yfir Ólafsdal en Skálin býður upp á er kjörið að ganga upp og niður Taglið við Lambadal beint á móti beinum. Þessi göngutúr er rúmir 3 kílómetrar fram og til baka miðað við að farið sé yfir ána frá Ólafsdalsbænum. Farið er í um 420 metra hæð. (Sjá leiðarlýsingu um lok Ólafsdalshringsins).
Þeir sem kjósa að fara hálfhring um Ólafsdal geta farið upp Fossakinnar en svo heita hlíðarnar vestan í Þverfjallinu sem liggja með fossunum í Ólafsdalsánni. Handan árinnar er þá Illatunga. Þessi leið er ekki fyrir lofthrædda eða óvant göngufólk þar sem hún liggur efst eftir kindagötu yfir skriðu ofan við gljúfrið við fossana. En útsýnið yfir fossana er mikilfenglegt. Þegar upp er komið má fara hvort sem er réttsælis og koma niður Taglið eða rangsælis og fara niður í Skál.
Fyrir þá sem vilja ekki mikla hækkun og halda sig fremur við jafnsléttu er afar skemmtilegt að ganga frá Ólafsdalsbænum, upp með ánni og inn í Hvarfsdalinn sem dregur nafn sitt af því að hann er nær allur í hvarfi þegar komið er að Ólafsdal. Þar innst fellur Hvarfsdalsáin í fögrum fossum niður í Draugaskot. Göngutúrinn fram og til baka er um 5 kílómetrar.
Mjög þægileg og stutt gönguleið liggur upp með Grjótánni á Kleifahlíð en hún er önnur áin sem komið er að þegar farið er frá Ólafsdal inn að Kleifum. Haldið er upp með Grjótánni, upp Grjótárlægðir. Þegar upp er komið er gengið austan við Grjótárvatn, sneitt suður fyrir Deild að Deildarvatni. Þaðan má halda norður á Stekkjarhyrnu, niður Skál í Ólafsdal eða fylgja leiðarlýsingu fyrir Ólafsdalshringinn og koma niður Taglið við Lambadal gegnt bæjarhúsunum í Ólafsdal. Þessa leið má líka fara sem hringgöngu frá Ólafsdal með því að ganga inn á Kleifahlíð eftir veginum og leggja svo upp fjallið.
Um Snartartunguheiði milli Bitrufjarðar og Gilsfjarðar voru þjóðleiðir milli sýslna. Kjörið er að koma í Ólafsdal, skilja bíla þar eftir og fá far yfir hina fögru Steinadalsheiði úr botni Gilsfjarðar, yfir í Kollafjörð og þaðan suður í Bitrufjörð. Í góðu skyggni er afar fallegt útsýni af Ennishálsinum sem ekið er yfir milli fjarðanna. Þegar komið er í Bitru er val um nokkrar leiðir en hér er tveimur þeirra lýst, um Krossárdal og Norðdal.
Vörðuð póstleið liggur um Krossárdal í Bitrufirði og að Kleifum í Gilsfirði. Göngumenn fara þá veg 641 að Gröf í Bitrufirði þar sem gangan hefst. Þaðan liggur slóði upp dalinn að eyðibýlinu Skáney undir Skáneyjarfelli. Yfir Einfætingsgil er farið á brú. Þaðan er gengið norðan árinnar á mörkum mýrar og hlíðar þar til komið er efst í Krossárdal. Þaðan liggur leiðin ýmist til hægri norður að Krossárvatni og þaðan að Gullfossi og niður að Kleifum eða til vinstri, suður Mjódal og framhjá Lambavatni upp í Torfalægðir. Þaðan er stefnan tekin vestur á Hvarfsdalshraun og að botni Hvarfsdals. Þaðan er svo lokið hringnum sem lýst er hér að framan í leiðarlýsingu Ólafsdalshringsins.
Önnur falleg og fáfarin gönguleið liggur um Norðdal frá Snartartungu innst í Bitrufirði. Þá er gengið upp með ánni sunnanvert í Norðdalnum. Þar er nokkuð jöfn hækkun upp dalinn en göngumenn eru hvattir til að gefa sér tíma til að skoða fossana í ánni. Þegar komið er upp úr Norðdalnum er farið sunnan við Torfalægðir og þaðan er stefnan tekin upp á Hvarfsdalshraun. Af Hraununum er mjög víðsýnt, m.a. yfir Húnaflóa. Farið er nokkuð norðan við hæsta punkt í Hvarfsdalshrauni og þá er komið að botni Hvarfsdals. Þaðan er svo fylgt leiðarlýsingu um Ólafsdalshringinn þar til komið er niður Taglið.
Þeir sem vilja skemmri leið og komast ekki alla leið yfir Steinadalsheiði í Bitru geta gengið mjög skemmtilega leið þar sem lagt er upp frá Kleifum, innst í Gilsfirði. Farið er upp kleifarnar vestan við ána með Gullfoss á vinstri hönd. Hér þarf að fara nokkuð varlega. Fyrst er haldið frá bænum upp á mel hægra megin við ána. Þá blasir Gullfoss við til vinstri. Þegar komið er að kleifunum er fylgt sneiðingum til hægri og stefnt í vestsuðvestur. Lokaspölurinn upp kleifarnar liggur svo beint í suður um miðja vegu milli Bungu og Búrfells. Þegar upp er komið má ganga í vestur allt fram á Stekkjarhyrnu og fylgja svo leiðarlýsingu um Ólafsdalshringinn eða ganga í suðvestur upp á Hvarfsdalshraun ofan við Torfalægðir og ljúka þannig leiðinni eins og farið hafi verið upp frá Bitru.
Nokkuð þægileg gönguleið í Ólafsdal hefst hjá sláturhúsinu við bæinn Efri Brunná. Þaðan er gengið upp með Brunnánni, inn Brunnárgjána milli Brunnárhyrnu í suðri og Holtahyrnu í norðri og ánni fylgt að mestu alveg þar til komið er upp á Hvolsfjallið. Þaðan er stefnan tekin í austnorðaustur og gengið sunnan við Lambadalsvatn og fram á brúnir Kragafjalls sunnan við Lambadal, gegnt bæjarhúsunum í Ólafsdal. Leiðinni lýkur með göngu niður Taglið.
Frá Neðri Brekku liggur vegslóði upp fyrir bæinn í átt að botni Brekkugils en meðfram því er best að ganga upp hrygginn sunnan gilsins. Þrátt fyrir nokkurn bratta er gangan ekki erfið. Þegar komið er upp í nær 590 m. hæð er gengið til norðurs eða norðausturs eftir því hvar fólk vill koma inn á Ólafsdalshringinn (sjá leiðarlýsingu um hann).
Fræðslustígurinn hefst við sjálft skólahúsið þar sem gestir geta fengið útprentaða leiðsögn eða sótt sér hana hér í pdf formi. Fyrsti áningarstaðurinn er mjólkurhúsið eða vatnshúsið sem reist var rétt fyrir aldamótin og svo fylgja gestir merktri leið þar sem staldrað er við númeraða áfangastaði og lesið bæði um viðkomandi stað og örnefni mannvirkja og náttúru í kring. Alls er stígurinn um 3 km og leiðir fólk um flestar af merkustu minjunum um skólahald og búskaparhætti í Ólafsdal. Meðal áfangastaða er grunnur Tóvinnuhússins, Lindin sem bæjarlæknum var veitt úr með undirhleðslum að bænum, Torfnátthaginn, Flóðveitugarðarnir og Stekkurinn. Unnið er að því að gera stíginn enn greiðfærari.
gönguleiðir