Saga Ólafsdals
Heimili fyrsta búnaðarskóla landsins!
Ólafsdalur við Gilsfjörð er meðal merkustu menningarminjastaða á Vesturlandi og við Breiðafjörð. Þar stofnaði Torfi Bjarnason fyrsta búnaðarskóla á Íslandi árið 1880 og var hann rekinn til 1907. Þar stunduðu 154 skólapiltar nám og komu þeir af öllu landinu. Myndarlegt skólahús frá 1896 stendur í Ólafsdal og er opið gestum á sumrin með sýningum, leiðsögn o.fl. Minjar um margar aðrar byggingar er á staðnum (smiðja, vatnshús, fjós, fjárhús, hesthús, tóvinnuhús…). Í Ólafsdal eru einnig jarðrækarminjar sem eru mjög merkilegar á landsvísu (beðasléttur, hleðslur og vantsmiðlunarmannvirki). Í Ólafsdal er myndarlegur minnisvarði af Torfa og Guðlaugu konu hans eftir hinn þekkta myndhöggvara Ríkharð Jónsson (1888-1977). Ólafsdalsfélagið vinnur nú að endurreisn staðarins.
Í tímaritinu Óðni var fjallað um ýmsa merkismenn. P.B. fjallar um Torfa skólastjóra í 3. tbl. Óðins, þann 1. júní 1912, en greinina má lesa hér að neðan, eða í upprunalegri útgáfu á Tímaritavefnum.
Torfi í Ólafsdal er fæddur að Skarði á Skarðströnd 28. ágúst 1838, og er því á þessu sumri einum vetri fátt í að hann verði hálfáttræður. Ber hann ellina
enn ágæta vel. Árið 1839 reisa þau hjónin Bjarni og Ingibjörg foreldrar Torfa bú á Frakkanesi á Skarðsströnd, voru þar stutt og fluttu að Bessatungu í Saurbæ. Lifði Torfi æskualdur sinn i sömu sveitinni sem hann hefur nú búið í full 40 ár.
Torfi varð snemma þarfur maður á heimili og vinnusamur. Smali varð hann 10 vetra, og þegar hann komst betur á legg, varð hann aðalfyrirvinna heimilisins, þvi að faðir hans var heilsubilaður, og efnin munu hafa verið lítil. Þegar Torfi var 24 ára að aldri fór hann burt úr foreldrahúsunum og til Ásgeirs frænda síns Einarssonar á Þingeyrum. Voru þau systrabörn Ingibjörg móðir Torfa og Ásgeir. Var það að ráði og vilja foreldra Torfa að hann fór norður, þótt illa mættu þau missa hann. Hugðu þau, sem og varð, betri menningarveg fyrir sinn efnilega son, að fara til hins mikla dugnaðarmanns, sem mikið hafði i takinu og bjó við góð efni. Þrjú ár var Torfi þá í vinnumensku hjá frænda sínum á Þingeyrum og í Ásbjarnarnesi.
Þau kynni fá nú Húnvetningar af hinum unga manni, að hugur vaknar í sýslunni að koma þar upp fyrirmyndarbúi, og Torfa ætlað að veita því forstöðu. Torfa var svo fyrirhuguð námsvist í Skotlandi, enda fjárrækt, þá sem nú, talin best þar í landi, og lögðu þeir Húnvetningar Torfa nokkur fararefni.
Nú hafði Torfi, eins og gefur að skilja, átt lítinn kost á bókmentun í æsku; flest las hann sem hann náði í og töluvert hafði hann lært í reikningi tilsagnarlaust eða tilsagnarlítið af bókum. Þegar hann var fyrir innan tvitugt, hafði hann um hríð verið hjá Kristjáni kammerráði á Skarði og fengið hjá honum tilsögn í dönsku. Nú fór Torfi suður til Reykjavíkur sumarið 1865, að því er jeg ætla til að búa sig undir Skotlandsferðina. Lærði hann þá næsta vetur ensku hjá Oddi Gíslasyni, er siðar varð prestur og nú er nýlátinn í Vesturheimi. Tilsögn fjekk og Torfi í dráttlist hjá Sigurði málara og í reikningi hjá Halldóri skólakennara Guðmundssyni.
Með vorbyrjun 1866 sigldi Torfi til Skotlands, og var hann í utanför þeirri um 3 missiri; var hann lengstan tímann við jarðyrkjuvinnu hjá bónda nálægt Peterhead, heldur norðarlega í landi. Eins var hann um tíma á jarðyrkjuverkfærasmiðju, og sumarið 1867 ferðaðist Torfi um landið til að kynna sjer það. Kom hann svo heim seinni part sumars, og settist aftur að á Þingeyruni. En ekkert varð af fyrirmyndarbúinu. Segir Torfi mér að samkomulag hafi ekki fengist, og svo mun og hafa staðið á fjenu, eins og frá er skýrt þá í blöðunum. Frá Skotlandi ritar Torfi vorið 1867 búnaðarmálabrjefin þrjú, sem prentuð voru í Nýjum Fjelagsritum það ár (Ný Fjelr. XXV). Brjefin voru send Jóni Sigurðssyni, og hann virðist hafa hleypt Torfa af stað. Í febrúar ritar Jón Torfa: »Það væri gaman, ef þjer væruð nú upplagður til að skrifa mjer langt og fróðlegt búnaðarbrjef frá Skotlandi, sem jeg gæti fengið prentað í ritunum«.
Þeir eru fjörugir þessir búnaðarpistlar Torfa, og fyrirheitin eru í þeim um alt æfistarf mannsins. Hann er kominn í nýjan »Sólarheim«, en svo sjer hann fljótt að náttúran hefur ekki gert landið svona fagurt. Nei, mikið af þessum fögru ökrum og grænu grundum hafa verið fúaflóar fyrir svo sem 100 árum, og þar sem skógurinn gnæfir yfir landið af hæðunum, var um sama leyti ekkert nema lyngmóar, eða máske eyðimelar. Öllu hefur verið umsnúið, flóarnir þurkaðir, mórinn færður burt til eldiviðar, svo tók plógurinn við; holtin pæld og losuð með pálum og pjökkum, þar sem plógurinn vann ekki á, stórgrýtið sprengt og flutt til húsabygginga eða til að girða landið.
»Þetta alt hefur nú lúð marga hönd, beygt margt bak og tæmt margan vasa, en það hefur líka fætt af sjer ánægju og auð á eftir. Hvar sem litið er sjest að óþreytandi atorka og starfsemi og tröllamáttur hugvitsins hafa styrkt hvað annað«.
Haustið 1868 giftist Torfi frænku sinni Guðlaugu Zakaríasdóttur frá Heydalsá í Strandasýslu. Hún hafði og verið á Þingeyrum hjá Ásgeiri
móðurbróður sínum. Vorið eftir reisa þau hjón bú á Varmalæk í Borgarfirði. Þá ritar Jón Sigurðsson kunningja sínum i Reykjavik:
»Það er gott að Torfi Bjarnason kemur að Varmalæk, þar er jörðin, bara að hann hefði nokkuð í höndunum að gera það með«.
Ekki býr Torfi nema 2 ár á Varmalæk. Nú finst manni undarlegt að flytja sig frá þeirri jörð og úr þeirri bygð vestur í fjallaklasann milli Bitru og Gilsfjarðar. Hugði jeg að heimahagarnir hefðu dregið hjónin vestur þangað, miðja vegu milli Dala- og Strandasýslna, en svo hefur Torfi sagt mjer, að mest hafi hann flúið þjóðbrautina. Umferð þar var afarmikil, er alt var á landi farið, og fyrir Hvalfjörð, en Torfi orðinn þjóðkunnur maður, og ákaflega gestrisinn; taldi hann það ofætlun fyrir konu sína að annast gesti daglega auk bús og barna. Þess má og minnast að framtíðarhorfur voru þá ekki miklar í Borgarfirði. Sigling ekki komin í Borgarnes.
Ólafsdal keypti Torfi af Jóni Bjarnasyni þingmanni Dalamanna, er þar bjó. Jörðin ekki full 18 hundruð, og engin sjerleg kostajörð talin.
Áður en Torfi settist að í Ólafsdal, rúmlega þrítugur, hafði hann unnið það verk, er landinu hefur orðið áþreifanlegastur hagur að. Áður en Torfi sigldi til Skotlands hafði hann mikið um það hugsað, að eignast ljá sem, ekki þyrfti að dengja, hafði hann gert nokkrar tilraunir, en þær smíðir mishepnast sem vænta mátti. í Skollandsförinni ljet hann smíða ljáinn í Manchester eftir fyrirmynd, er hann bjó til, og kom hann heim með 12 ljáblöð, er reynd voru sumarið eftir. Nýju ljáirnir »ensku« ruddu sjer svo alveg til rúms á 3 árum, 1868-1871, að varla sást »íslenskur« ljár úr því.
Ameríkuhugurinn kom við Torfa sem fleiri um þær mundir. Vorið 1873 fer hann nokkurs konar landkönnunarferð vestur um haf, og var sumarið í ferðinni, kom heim um haustið. Var ráðagerð og hugur í nokkrum mönnum í Dalasýslu að fara vestur, og halda hópinn, ef Torfa litist vel á og vísaði þeim til lands. Torfi kom í kornlöndin frjóu inni í miðjum Bandafylkjum, þar sem Skandínavar voru þá sem örast farnir að taka land, en ekki þótti Torfa ráð fyrir sig, efnalítinn ómagamann, að flytja vestur, og munu þá hinir sýslungar hans flestir hafa og sest aftur. En tveir bræður Torfa eru enn á lífi í Vesturheimi, var annar þeirra í för með Torfa og varð eftir. Jón Sigurðsson víkur að þessari vesturferð Torfa í brjefi til hans nokkru síðar:
»Jeg var orðinn hræddur um, að við mundum ætla að missa af yður, og þess vegna varð jeg því glaðari í þeirri von, að þjer hafið sannfært yður sjálfan um það, sem jeg held rjett vera, að nóg sje að starfa á íslandi sjer og öðrum til gagns, og með ekki lakari útsjón en annarstaðar, ef menn hafa lag á að vera samhentir. Það er líka sorglega hlægilegt, að vjer hugsum nú að fara úr landi, þegar fyrst er von á framförum, sem eru á okkar valdi, eftir mörg hundruð ára kúgun, sem við höfum þó komist frá með lífinu og þó nokkrum – endafurðanlega miklum – sálarkröftum og fjöri«.
Torfi fór brátt að sljetta túnið í Ólafsdal, sem alt var þýft, og notaði plóg og önnur áhöld til ljettis vinnunni, sem lítið var þá um. Gerðust þá fáeinir ungir menn til þess að læra hjá honum að plægja og sljetta. Þetta varð orsök til þess, að þeir Sigurður sýslumaður Sverrisson í Bæ og Guðmundur prófastur Einarsson á Breiðabólsstað á Skógarströnd hvöttu Torfa til að bjóða amtsráði Vesturamtsins, að koma á fót búnaðarkenslustofnun í Ólafsdal fyrir Vesturamtið. Tók amtsráðið þeirri málaleitan vel og komst stofnunin upp vorið 1880, og byrjaði með 5 lærisveina. Þessi búnaðarskóli Vesturamtsins stendur svo fullan fjórðung aldar og þarf eigi að rekja sögu hans. Oftast voru þar 12 lærisveinar, teknir 6 nýir á ári. Framan af voru flestir nemendur af Vesturlandi, af því að þeir gengu fyrir, en sóttur hefur skólinn verið af öllu landinu. En mest og best hafa óefað Dalasýsla og Strandasýsla notið Ólafsdalsskólans.
Nemendur frá Ólafsdal minnast allir Torfa og heimilisins þar mjög hlýlega, og á húsfreyja þar sinn góða hlut óskertan. Fjelagslíf var þar gott og fjörugt. Haldið var þar úti skólablaði og umræðufundir á hverju laugardagskvöldi. Var húsbóndinn og skólameistarinn sjálfur lífið og sálin í þeim fjelagsskap pilta. í einu bar Ólafsdalsskólinn sjerstaklega af öðrum búnaðarskólum, hvað þar var mikið smíðað af jarðyrkjuverkfærum, er komu þá eins og á stóð í góða þörf. Jeg hygg að Torfi hafi sjálfur lengst af verið aðalsmiðurinn, og smíðar kendi hann piltum. Sá, sem þetta ritar, minnist þess er hann fyrir 10 árum kom í Ólafsdal á miðjum degi, þá kom húsbóndinn út úr smiðjunni sinni, kolugur og krímugur, niður að þrepunum upp úr heimreiðartröðunum. Herma þykist jeg það rjett, að fleiri en 100 plógar hafi veríð smíðaðir í Ólafsdal, eitthvað svipuð tala af herfum, og tíðast voru þá aktygin keypt með, sem þar voru og gerð. Þá voru þar og smíðaðar einar 60-70 kerrur, einkar traustar og sterkar, eins og öll áhöld voru frá Ólafsdal. Nefna mælti enn hestarekur og ristuspaða.
Torfi hefur verið forgöngumaður margskonar fjelagsskapar í sinni bygð, komið á lestrarfjelagi og bindindisfjelagi, stofnað verslunarfjelag Dalasýslu og var formaður þess í ein 15 ár. Eins mun hann hafa átt góðan hlut í stofnun kaupfjelaga þar vestra. Mikið kapp hefur hann lagt á skuldlausa verslun í þeim fjelagsskap, þótt eigi hafi lánast svo sem hann vildi. Sjálfur hefur hann alla sína æfi, frá því er hann fór að búa, átt við skuldir að stríða, byrjaði efnalaus, lagt í óumræðilega mikinn kostnað. og bújörðin fremur vanþakklát, er jeg hræddur um. Erfiðast taldi Torfi að þurfa að sækja alla kaupstaðarvöru annaðhvort til Borðeyrar eða Stykkishólms, og verða það mikil og góð umskifti, er Gilsfjörður er mældur og uppsigldur til Salthólmavíkur, og má þaðan, um eina viku sjávar, flytja með grunnskreiðu fari þungavöru í túnfótinn.
Torfa hefur það og verið efnalegt tjón, að hann vildi búa stærra en Ólafsdalur átti til, og hafði jarðir undir úti í Saurbæ og lagði þar mjög mikið í kostnað til byggingar peningshúsa, sem svo varð lítið úr. Nú væri Ólafsdalur mjög gott setur fyrir snotran búskap kostnaðarlítinn. Töðufallið nú 800 hestar, með gerðistúninu niður við sjóinn, þar sem standa járnvarin fjárhús yfir 160 fjár, með hlöðum við. Auk töðunnar má nú afla c. 400 hesta af útheyi, mestalt eða alt innan girðinga, hygg jeg. Með nátthögum munu þar girtar um 130 dagsláttur, og um helmingur af því er tún. Sauðbeit er góð í hlíðunum, að minnsta kosti gera ærnar gott gagn á sumrin eftir því sem Torfi skrifar um fráfærurnar. Hlöður, meira og minna járnklæddar, eru yfir hey öll. Fjósið er alt úr steini með járnþaki, yfir 15 kýr, og haugshús úrsteini við, sem tekur alla ársmykjuna.
Myndin af bænum, í fjarsýn, – og virðist mjer hún vera nokkuð gömul, – lætur ráða í túnaukana hjá Torfa, undir fjallshlíðinni, inn dalinn. Hin myndin, sem tekin er nærri, neðan úr tröðunum, sýnir húsin heima við svo sem þau eru nú: Til vinstri handar er smiðjan með geymsluskúr við, og er húsið alt 12×12 álnir. Þá sjer á stafninn á lágu húsi, milli smiðjunnar og skólahússins, og er steinhús, en það er mjólkurhús með kælitækjum, því að vatnsveita er um alt, þvottahús og úti-eldhús. Aðalhúsið, sem reist var 1896, er 30 álna langt, og tæpar 12 álnir á breidd, aljárnvarið, steinlímdur kjallari undir. Vandað var mjög til viða og smíðar, og var húsið að sjá sem nýtt væri, er jeg kom þar fyrir 3 sumrum. Við suðurstafninn á skólahúsinu er og stæðilegt hús, þótt lítið beri á því á myndinni, heitir það Suðurhúsið, er tvílyft með steyptu gólfi, og stærðin 10X12 álnir. Væri þar gott íbúðarhús fyrir ábúanda jarðarinnar, yrði meginhúsið aftur tekið til skólanota. Þá er til hægri handar skemma eða hjallur 12×6 áln., og yst til hægri handar sjest á norðurstafninn á fjósinu. Hlöður sjást engar á myndinni.
Nú er það að muna að Torfi hefur mjög vandað til allra bygginga sinna, viljað hafa allar smíðar sínar traustar, og í annan stað mun óhætt að fullyrða, að engu minna fje hefur lagt verið í moldina í Ólafsdal en í húsin, og munu menn þá skilja, að fram hafi komið við Torfa það, sem hann ungur las út úr jörðinni á Skotlandi, að alt þetta hefur lúð höndina, beygt bakið og tæmt vasann.
Jeg get eigi stilt mig um að fara hjer með nokkur orð, sem Torfi hefur ritað mjer. Veit jeg að hann mundi banna mjer að hafa eftir, ef jeg spyrði leyfis. Orðin eru þau:
»Jeg hef lengst af hagað mjer eins og barn: Aldrei komið auga a torfærurnar fyrir því, sem jeg áleit þarft að fá framgengt, og aldrei munað eftir sjálfum mjer«.
Þegar Torfi er fallinn i valinn, verður sögð saga hans, sem um leið verður búnaðarframfarasaga landsins um þrjátíu ára skeið. Maklegt lof fær hann þá í minning þjóðarinnar. Verður honum þá, er frá líður, eigi til ámælis, að hann var trúarsterka barnið, sem eigi mundi eftir sjálfum sjer.
Samfara þessari miklu vinnu Torfa, sem nú hefur að nokkru verið vikið að, vanst honum tími til allmikilla ritstarfa. Eru búnaðarmálaritgerðir hans í Andvara, Búnaðarritinu og Tímariti Bókmentafjelagsins og víðar í tímaritum og blöð-um, sem oflangt yrði upp að telja. Sumar ritgerðir hans eru frá kenslunni á skólanum, og hafa þá jafnframt verið notaðar við kenslu á hinum búnaðarskólunum. Jeg nefni, nokkuð af handahófi, til að geta nokkurra þýðingarmikilla ritgerða hans í timaritunum: um áburð -um búnaðarkenslu -um framræslu – um súrhey – um verslun sveitabænda. Skilst manni við að lesa búnaðarmálagreinar hans, að verið hefur hann afbragðs góður kennari. Hann er svo ljós og skýr í máli.
Það, sem Torfi ber mest fyrir brjósti nú á gamals aldri, er það, hvað hann telur framtíðarhorfur landbúnaðarins valtar, meðan búpeningur landsmanna er eigi trygður fyrir harðæri. Hefur Torfi fyrir skemstu ritað greinir i Búnaðarritið um heyásetning og fóðurforðabúr, og áframhald því efni til árjettingar bíður prentunar sem stendur.Torfi mun hafa haft á hendi öll venjuleg störf fyrir sitt sveitarfjelag og sitt hjerað um lengri eða skemmri tíma, i hreppsnefnd,sýslunefnd og amtsráði, en við stjórnmál hefur hann aldrei viljað fást. Hefur hann þó oftar en einu sinni átt kost á að verða kosinn á þing. Telur hann sig hvorki hafa haft tíma til þess að setja sig inn í stjórnmál, og eigi heldur treyst sjer til að kom þar fram til gagns.
Torfi þakkar Guðlaugu konu sinni mest og best heimilisstjórn alla í Ólafsdal. Og eigi hefur hún síður þurft að taka til hendinni um dagana. Sjö árum er hún yngri en Torfi, sköruleg kona og gæðaleg. Gestkvæmt hefur verið í Ólafsdal og heimilið lengst af mjög fjölment. Þau hjón eignuðust saman 12 börn. Þrjú dóu ung, fimm börnin hafa andast uppkomin, 4 dætur og sonur komin til náms í háskólann. Fjögur börnin lifa, dætur tvær Áslaug og Ragnheiður, giftar konur, Áslaug á Ljótsstöðum í Laxárdal í Suðurþingeyjarsýslu og Ragnheiður á Skeljabrekku í Borgarfirði, og synir tveir, Ásgeir efnafræðingur og Markús, yngstur barnanna, búfræðingur, sem er föður sínum til aðstoðar í Ólafsdal.
Ólafsdalsskólinn var fyrsti bændaskóli á Íslandi og tilgangur með stofnun hans að kenna bændum verklega og bóklega jarðrækt. Húnvetningar höfðu haft hug á að stofna til þessa sérstaklega fyrirmyndarbú og fá Torfa til forustu þess. Í því skyni sigldi Torfi til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur íslendinga og hafði Torfi meðferðis til bakabúfræðiþekkingu frá Skotlandi. Ólafsdalsskóli var settur á stofn fyrir sakir áhrifa strauma erlendis frá, en með stofnun hans var formgerð þekking Torfa og fleiri sem þá störfuðu víða um land sem farandbúfræðingar.
Skólinn var settur i fyrsta sinn 1. júní 1880 þegar fimm ungir menn hófu þar nám. Var námsárið frá vori til vors og námstíminn tvö ár. Voru nemendur ráðnir til ársvistar í senn með áskilnaði um skipulagt jarðræktarnám. Áhersla í námi var á kennslu í notkun hestaverkfæra við jarðræktarstörf og heyskap og komu nemendur jafnframt að smíði á eigin verkfærum. Bókleg kennsla var í reikningi, efnafræði, grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og teikningu, húsdýrafræði og eðlisfræði. Nemendur gengu jafnt til allra verka sem og undirbúnings fyrirlestra kennarans.
Innritaðir nemendur á starfstíma Ólafsdalskóla 1880-1907 töldu 154 alls. Í Skotlandsdvöl sinni 1866-1867 kynnti Torfi sér m.a steinsmíði er nýttist vel við uppbyggingu húsakosts í Ólafsdal. Skólahúsið frá 1896 var viðgert og allt yfirfarið 1995-1996 og stendur þar enn.