Dalablóð – Sýning Guðrúnar Tryggvadóttur

dalablóð-guðrún_tryggvadóttir

Dalablóð er heiti málverkasýningar Guðrúnar Tryggvadóttur í Ólafsdal, sem opnar þann 23. júlí kl. 14:00.
Sýningin stendur til 14. ágúst 2016 og er opin daglega frá kl. 12:00 til 17:00. Sýningin er í sex herbergjum á 2. hæð skólahússins í Ólafsdal þar sem Guðrún stillir upp formæðrum sínum og sér og dóttur sinni, hverri á móti annarri og skapar þannig aðstæður fyrir fjölskyldufund.

Guðrún segir um þessa sýningu og tilurð hennar:

Á undanförnum mánuðum og árum hef ég unnið að verkum sem fjalla um fjórðu víddina, tímann, birtingarmynd hans, tölfræðilegar staðreyndir í endurnýjun kynslóðanna og þau mynstur sem þær framkalla.

Ég þurfti að leita leiða til að sjá tímann á nýjan hátt, tengja hann sjálfri mér og þar með öllu mannkyni. Um leið er ég að rannsaka innbyrðis tengsl kynslóðanna, þynningu erfðamengisins og minningar sem við berum í okkur frá einni kynslóð til annarrar og hugsanleg áhrif þeirra á okkar líf.

Þessi vinna hefur leitt mig inn á braut sem virðist nær óendanleg því þær stærðir og sá massi sem við blasir er mannskepnunni í raun óskiljanlegur í óendanleika sínum.

Um leið hef ég verið að vinna úr minningum sem ég hef um formæður mínar og skoða hlutverkið sem þær hafa leikið í lífinu sem er í raun sama hlutverkið og hver manneskja leikur í dag og mun leika í framtíðinni.
Þetta stefnumót við formæður mínar varpar sífellt upp nýjum myndum og mynstrum sem mér finnast bæði upplýsandi og gefandi að skoða og vinna með innan ramma myndlistarinnar.

Sýningin „Dalablóð“ fjallar um formæður mínar í beinan kvenlegg, þær sem fæddust og bjuggu í Dalasýslu og okkur hinar sem fluttust suður. En þar sem ég hef enga persónulega minningu sem tengist Dalasýslu beint hefur það verið ævintýri að fara á heimaslóðir formæðra minna og setja mig í þeirra spor, vinna úr reynslunni og mála þær síðan á staðnum, í Dölunum.

Markmiðið var að tengjast formæðrum mínum í anda og efni og reyna að bera okkur saman eða sameina okkur. Finna einhvern þráð sem mig vantar og mér finnst áhugaverður í leit minni að sjálfri mér og eðli mannlegs lífs.

Niðurstaða mín er sú að í raun upplifum við allar það sama. Forvitni og gleði, ástir og sorgir og sífellda glímu við að fæða börnin okkar, hlúa að fjölskyldunni, finna lífinu tilgang og reyna að lifa af í harðbýlu landi. Líkami okkar er tímabundið ástand sem kemur og fer, umbreytist í nýja kynslóð sem aftur upplifir það sama. Er það sama.

Lífið er gjöf sem við verðum að segja skilið við og afhenda nýjum kynslóðum og í því felst í raun mikil hamingja. Dauðinn er ekki sorglegur heldur hluti af nauðsynlegri verkan tilverunnar.

Afrakstur þessa ferðalags um tímann má sjá í sex herbergjum á 2. hæð skólahússins í Ólafsdal þar sem ég stilli upp formæðrum mínum og mér og dóttur minni, hverri á móti annarri og skapa okkur þannig aðstæður fyrir fjölskyldufund, hljóðlátt samtal um lífið sjálft, tilgang þess, andann og efnisheiminn og gleðina yfir því að fá að vera þátttakendur í því að halda lífinu áfram með sífelldri endurnýjun.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.